Skipulag og undirbúningur áður en útflutningur er hafinn er nauðsynlegur fyrir fyrirtæki til að ná betri og hnitmiðaðri árangri. Erfiðasta ákvörðunin er yfirleitt inn á hvaða markað á að sækja fyrst. Tækifærin liggja víða og því falla margir í þá gryfju að ætla sér um of í byrjun. Mikilvægast er að velja einn ákveðinn markað til að byrja með og miða alla vinnu við að komast inn á þann markað ef einhver árangur á að nást.

Hvaða leið hentar þínu fyrirtæki?

Ekki eru til neinar fastmótaðar verklagsreglur um það hvernig hefja eigi útflutning heldur verður hvert fyrirtæki fyrir sig að finna þá leið sem hentar því. Í raun gæti fyrirtækið nú þegar verið að flytja út án þess að gera sér grein fyrir því. Þegar litið er til baka og farið yfir söguna kemur oft í ljós að einhver erlendur viðskiptavinur keypti vöru fyrirtækisins á einhverjum tímapunkti og þá er mikilvægt að skoða eftirfarandi atriði til að læra af þeirri reynslu:

  • Hvernig vissi hann af vörunni?
  • Af hverju keypti hann hana?
  • Reyndist hún betri en það sem hann hefði keypt á heimamarkaði til að uppfylla sömu þörf?
  • Myndi hann kaupa vöruna aftur? 

Svörin við þessum spurningum gætu hjálpað til við að finna bestu leiðina inn á viðkomandi markað.

Markaðsupplýsingar

Mikilvægt er að afla sér upplýsinga um markaði áður en ákvörðun er tekin um hvort reyna eigi inngöngu. Skoða þarf þætti eins og laga- og tollaumhverfi, samkeppnisumhverfi og möguleg tækifæri miðað við þann markhóp sem ná á til. Nánar um markaðsupplýsingar.

Einn markaður og ein vara í einu

Mikilvægt er að leggja áherslu á einn markað í einu og hafa jafnframt í huga að setja helst ekki meira en eina vöru á hvern markað í einu. Ef um vörulínu er að ræða verður að skoða vel hvort eigi að markaðsetja eina vöru eða fleiri.  Markaðsrannsóknir geta hjálpað til við þessar ákvarðanir.

Erlendar fyrirspurnir

Fyrstu skref fyrirtækja á erlendan markað geta verið mjög mismunandi. Stundum hefst útflutningur fyrirtækis á fyrirspurn frá áhugasömum aðila sem hefur hug á að hefja innflutning á viðkomandi vöru.  Í einhverjum tilvikum getur það skilað árangri en í flestum tilfellum er nauðsynlegt að staldra við og spyrja sig eftirfarandi

  • Er umræddur markaður sá hentugasti til að byrja á fyrir viðkomandi vöru?
  • Er viðkomandi aðili sá rétti til að tryggja tilætlaðan árangur á umræddum markaði?
  • Er hugsanlega vænlegra að byrja á öðrum markaði?
  • Hefur verið lagt mat á hver gæti verið væntanlegur árangur á viðkomandi markaði?
  • Það er því ljóst að nauðsynlegt er að skoða allar forsendur áður en „stokkið” er á fyrstu fyrirspurn frá markaði erlendis.

Hvernig getur Íslandsstofa aðstoðað þig við val á útflutningstækifærum? Hafðu samband, Andri Marteinsson og Erna Björnsdóttir taka vel á móti fyrirspurnum frá þér.