Íslandsstofa vinnur náið með öðrum aðilum í stuðningsumhverfi íslenskra fyrirtækja að verkefnum sem snúa að útflutningi og kynningarstarfi erlendis.

Verkefni sjávarútvegsins um upprunamerki og ábyrgar fiskveiðar, Iceland Responsible Fisheries, nýtur þjónustu Íslandsstofu um kynningu og markaðssetningu erlendis. Íslandsstofa sér um kynningarstarf á mörkuðum fyrir íslenskar sjávarafurðir undir merkjum Iceland Responsible Fisheries.

Stærsta samstarfsverkefnið sem Íslandsstofa tekur þátt í er verkefni sem nefnist Ísland allt árið og miðar að því að efla heilsársferðaþjónustu hérlendis. Um er að ræða samstarfsverkefni opinberra aðila og einkafyrirtækja, en Íslandsstofa sér um rekstur verkefnisins sem rekið er undir merkjum Inspired by Iceland.

Í september 2009 skrifaði Íslandsstofa undir Global Compact samkomulag Sameinuðu þjóðanna og skuldbatt sig þar með til að taka þátt í umræðunni um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja á sínum vettvangi, ásamt því að hvetja þau til þess að tileinka sér þann þátt í starfsemi sinni.

Nýsköpunarverðlaun Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Nýsköpunarsjóðs hafa verið veitt árlega  frá 1994 með það að markmiði að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu og rannsókna og þekkingaröflunar.

Útflutningsverðlaun forseta Íslands eru veitt árlega í viðurkenningarskyni fyrir markvert framlag til eflingar á útflutningsverslun og gjaldeyrisöflun. Íslandsstofa kemur að framkvæmd verkefnisins, í nánu samstarfi við skrifstofu forseta Íslands.