Nýtt gangtegundamyndband ýtir undir vinsældir íslenska hestsins um allan heim

Horses of Iceland sendi nýlega frá sér myndband þar sem gangtegundir íslenska hestsins eru sýndar. Í myndbandinu eru allar fimm gangtegundir hestsins sýndar á eðlilegum hraða sem og í hægri sýningu til að auðveldara sé að glöggva sig á fótaröðun hverrar gangtegundar fyrir sig.

Viðbrögðin við myndbandinu hafa verið gífurlega góð, fleiri hundruð þúsunda hafa horft á myndbandið, deilt því og tjáð sig um það. Myndbandið var birt á samfélagsmiðlum 12. október sl. og á fyrstu fjóru dögunum hafði það fengið yfir hálfa milljón áhorfa. Af þessu að dæma er mjög mikill áhugi á íslenska hestinum um allan heim.

Gangtegundamyndbandið ýtir undir eitt af helstu markmiðum verkefnisins Horses of Iceland, sem er að vekja athygli á og markaðssetja íslenska hestinn um allan heim. Verkefnið er hýst og unnið af Íslandsstofu.

Myndbandið var tekið upp í Skagafirði, í landi Bakka í Viðvíkursveit þar sem íslensk náttúra fær að njóta sín í bakgrunni. Tamningameistarinn Þórarinn Eymundsson er knapi á stóðhestinum Narra frá Vestri-Leirárgörðum. Myndbandið er framleitt af Skotta Film fyrir Horses of Iceland og grafíkin var í höndum PIPAR\TBWA.