Könnun um viðskipti og fjárfestingar íslenskra fyrirtækja í þróunarlöndum

Íslandsstofa og utanríkisráðuneytið kortleggja um þessar mundir hlutverk og möguleika á aukinni þátttöku íslensks atvinnulífs í uppbyggingu í þróunarlöndum. Sérstök áhersla er þar lögð á sjálfbæra þróun og nýtingu íslenskrar sérþekkingar.

Vinnuhópur, samsettur af starfsmönnum utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu, hefur blásið til könnunar þar sem leitað er til fyrirtækja og áhugi atvinnulífsins til þróunarsamvinnu kannaður. Markmiðið er að greina stöðuna og möguleg tækifæri en til stendur að skoða alla möguleika á samvinnu við íslensk einkafyrirtæki og atvinnulíf um þróunarsamvinnu. Áhersla er lögð á að sérþekking Íslendinga nýtist sem best í aðstoð og samvinnu við þróunarríkin.

Í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og niðurstöðum alþjóðaráðstefnu um fjármögnun þróunar í Addis Ababa árið 2015 hefur mikilvægi einkageirans verið áréttað. Ljóst þykir að opinbert fjármagn nægir ekki eitt og sér til að Heimsmarkmiðunum verði náð og jafnframt staðið við aðrar alþjóðlegar skuldbindingar. Við starfið fram undan er áhersla lögð á að viðskiptamál fái aukið vægi og skoðað verði með hvaða hætti hægt er að veita þróunarríkjum stuðning á því sviði.

Könnun vinnuhópsins hefur þegar verið send út til fjölda fyrirtækja. Enn er engu að síður opið fyrir þátttöku og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband. Frekari upplýsingar veitir Andri Marteinsson (andri@islandsstofa.is)